Ég fór í kvöld á tónleika með Herði Torfasyni í Iðnó, tónleikar þann 8. apríl, sem því miður alltof margir misstu af. Þannig er þetta alltaf með listina og sköpunina. Þeir sem hafa slíkt að flytja vita aldrei hversu mörgum tekst að mæta. Salur Iðnó faðmaði þó algerlega svo fagurlega þessa mögnuðu tónleika og við vorum nógu mörg og miklir aðdáendur listamannsins til að eiga þarna magnaða kvöldstund. Hörður Torfason er sérstök og mjög stór stærð í íslenskri menningu og ein sú langheiðarlegasta og róttækasta og það er kannski þess vegna sem hið íslenska samfélag hefur svo oft átt í erfiðleikum með að meta gjafirnar sem hann færir því. Hann er maður sem segir okkur, á svo snilldarlegan hátt, fagran og listrænan, hvað er rangt í því sem við gerum, hugsum og skiljum. Hörður Torfason leyfir ekki íslensku samfélagi að leggjast í leti í því hvernig það hugsar og hann leyfir því ekki að damla sjálfumglöðu í fordómum eða bulli. Hann er og hefur alltaf verið “debattör”. Hann mótmælir, hann safnar saman kýlunum og stingur á þau öll í einu, en samt í svo hárfínu formi og snilldarlega að það verður úr því hugvekja og mjög oft glettin skemmtun en ekki skammarræða. Þetta tekst honum með gítargripum sínum og haglega ortum textum. Hann kann að taka hið rammíslenska, brestina, sjálfumgleðina, ástina, náttúruna, tilveruna, manneskjuna, draumana, hið sorglega, skoplega, barnslega, tröllslega, dvergslega og mennska sem íslenskt samfélag og hugarfar er ofið úr og skapa úr því frásögn í tónum þar sem maður og gítar spila á allt litrófið sem áheyrandinn þekkir úr eigin lífi, úr eftirkeimi minninga liðinna kynslóða og horfins samfélags eða þá í brennandi og sárum flækjum samtíðarinnar sem fyllir flesta Íslendinga sem nú lifa meiri ógleði en landsmenn hafa þurft að þola lengi og líka ógleði af nýrri gerð samanborið við það sem áður hefur á þjóðinni dunið. Það er einmitt þetta sem gerir Hörð Torfason að einum að okkar mögnuðustu tónlistarmönnum. Hann segir satt. Hann lýgur ekki. Hann forðast ekki að nefna hið óþægilega. Hann leyfir okkur ekki að vaða áfram í þægilegri sjálfsblekkingu. Íslendingum kann þess vegna að þykja hann óvæginn og vilja forðast hann, ekki hlusta á hann, því sannleikanum er hver sárreiðastur. Tímarnir eru þannig núna að við eigum að hlusta, líka á það sem er óþægilegt. Við eigum ekki að missa af röddum þeirra sem hafa eitthvað fram að færa, þeirra sem sem eru heiðarlegir. Þess vegna eigum við t.d. að hlusta á fallega tónlist og sögur Harðar Torfasonar baráttumanns, mótmælanda “par exellence”, söngvaskálds og sagnaskálds; Manns sem færir okkur bæði list og veruleika í senn og það á aðeins einni kvöldstund, á tveimur klukkutímum. Núna er sá tími hjá okkur í þessu landi að við eigum að horfa til listarinnar, meta hana og þá sem hana flytja af snilld. Það er núna sem augnablikið er sem höfum til að dá okkar listafólk og flínkustu gagnrýnendur. Aðdáun á listamönnum þegar þeir eru látnir sem ekki voru metnir að verðleikum á meðan þeir voru á lífi hafa verið endurtekin nógu oft hjá alltof mörgum þjóðum. Núna eiga Íslendingar að safna sér saman að baki sínum gagnrýnu og færu listamönnum. Núna en ekki seinna. Þeir eru beittasta röddin og heiðarlegasta andsvarið sem við höfum í því ástandi sem okkur hefur verið komið í nú um þessar mundir. Hörður Torfason er einn af Íslands merkilegustu mannréttindafrömuðum, eins og allir vita sem þekkja hans baráttusögu, en hann er líka tilfinningaríkur og orðhagur tónlistarmaður sem býður áheyrandum upp á eðaltónlist og texta sem taka yfir svo víðfeðmt litróf tilverunnar að hægt er að lenda í öllum víddum, eða svo vitnað sé í hans síðustu útgáfur þá er efniviðurinn bæði eldssaga, loftssaga og jarðssaga. Og sem betur fer fyrir fólk sem elskar góða tónlist sem hefur eitthvað að segja þá veit ég að það eiga eftir að koma frá Herði fleiri diskar sem munu fanga frumkraftana í tilverunni og mannshjartanu.
Hörður Torfason. Apríltónleikar
April 9, 2010 by Unnur Birna Karlsdóttir
Posted in tónleikar | Tagged þjóðfélagsádeila, Hörður Torfason, list, tónleikar, tónlist | Leave a Comment
Höfundur efnis
Unnur Birna Karlsdóttir
Sagnfræðingur og rithöfundurSíður
-
Nýjast
Efni
Annað efni
Meta
Flokkar
Efni
Leita
Höfundur og eigandi efnis
-
Join 16 other subscribers
- Follow Rósir og hraunbreiður on WordPress.com
Leave a Reply