Feeds:
Posts
Comments

Sköpunarsaga

Tók hún þá dropana
safnaði þeim í lófann
og blés
svo þeim rigndi
yfir heiminn
svo úr varð haf

Tók hún þá moldina
fyllti lófann
og blés
svo hún fauk
yfir heiminn
svo úr varð land

Tók hún þá ískristallanna
safnaði þeim í lófann
og blés
svo þeir þjöppuðust saman
yfir heiminum
svo úr urðu ský

Tók hún þá stráin
safnaði þeim í fangið
og blés
svo þau þyrluðust
yfir heiminn
svo úr varð gresja

Tók hún þá sandkornin
safnaði þeim í lófann
og blés
svo þau fuku
yfir heiminn
svo úr varð eyðimörk

Tók hún þá laufin
safnaði þeim í fangið
og blés
svo þau feyktust
yfir heiminn
svo úr varð skógur

Tók hún þá snjókornin
safnaði þeim í lófann
og blés
svo þau sáldruðust
yfir heiminn
svo úr urðu jöklar

Tók hún þá strauminn
vafði í þræði
leysti í sundur
og kastaði
yfir heiminn
svo úr urðu fljót

Tók hún þá hjartslátt sinn
varlega í lófann
og blés
svo hann sveif
yfir heiminn
svo úr varð líf

(júlí, 2009)

Advertisements

Ég sé hana þó aðrir geri það ekki. Þannig byrjaði þessi skáldsaga í huga mér. Ég sá fyrir mér karlmann sem elskar konu sem er honum glötuð og hann henni. Og síðan spannst söguþráður uns til varð sagan sem kom út 3. ágúst 2016 hjá Bjarti. Bókin er bók mánaðarins í ágúst 2016 í Eymundsson.

ÆVINTYRI2016_ubk_1 (492x800)

Sjá hér viðtal við höfund um bókina í Fréttablaðinu:

http://www.visir.is/her-fae-eg-ad-vera-skaparinn-og-rada-lifi-og-dauda/article/2016160809507

Listamenn eru ekki bara stjörnur í þeirri merkingu að vera heimsþekktir heldur líka vegna þess að þeir eru ljós á himni í tilveru svo margra. Þegar mikill listamaður deyr skapast tómarúm en líka eftirþankar, endurminningar og eftirmæli. Hver fyrir sig sem naut ljóssins sem stjarnan gaf frá sér hugsar sitt og óskar þess jafnvel að hafa getað átt listamanninn lengur að til að njóta nýrra verka hans í samtíð og framtíð. Listamenn móta okkur, úr sinni miklu fjarlægð við okkur í raunheimi þá móta þeir okkur, fylla tómarúm í lífi okkar og næra fegurðar- og skilningsþrá okkar, og kannski með enn persónulegri og sérstakari hætti gerist það á þeim árum sem við erum ungmenni að mótast og taka við heiminum og reyna að passa inn í hann um leið og við skiljum svo margt ekki, hvað þá að við vitum hvað bíður okkar þegar við verðum stór.

Slíkur listamaður var David Bowie. Hann var stjarna. Hann var stjarna á svo stórum himni að hann hefur ekki getað ímyndað sér í hve marga útkima heimsins og inn hve í margar sálir list hans náði að skína. Hann t.d. vissi auðvitað aldrei að í sveit norður í landi sem liggur rétt sunnan við heimskautsbaug var einu sinni stelpa sem dáði hann og fannst tónlistin hans færa nýja, framandi og ögrandi vídd í veröldina, vídd sem gerði lífið betra og dularfullt og var kærkomin viðbót við allt sem hún hafði áður heyrt, og um leið líkt og ættuð utan úr geimnum, samanborið við þá tilbreytingarlitlu veröld í sauðalitunum sem stelpan óx upp í.